• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Saga Dalbjargar

Hjálparsveitin Dalbjörg

Hjálparsveitin Dalbjörg

Forsaga þessarar Hjálparsveitar er að árið 1981 fóru hreppsnefndirnar í gömlu hreppunum þremur í Eyjafjarðarsveit að hugsa um að hvort ekki væri ráð að stofna Hjálparsveit í sveitinni til aðstoðar við sveitungana ef vá bæri að höndum.  Haldnir voru fundir um alla sveit og voru undirtektir nokkuð góðar, en þó sínu mestar í gamla Saurbæjarhreppi.  Seint á árinu 1982 var kominn vísir að fyrstu félögum í tilvonandi Hjálparsveit. Í mars 1983 var Hjálparsveitin formlega stofnuð og var í fyrstu kölluð Hjálparsveitin framar Akureyrar enda var fengin aðstoð frá þáverandi Hjálparsveit skáta á Akureyri sem leiðbeindu þessum hópi til að byrja með. Fljótt urðu menn þyrstir í meira sjálfstæði og fékk sveitin nafnið sem hún ber í dag, Hjálparsveitin Dalbjörg og gekk í Landssamband Hjálparsveita sem síðar varð Slysavarnafélagið Landsbjörg. Mikill hugur var í hópnum og voru haldnir fundir reglulega hjá Kristjáni og Helgu í Steinhólaskála sem sýndu sveitinni mikinn velvilja. Samkeppni var haldin um merki Dalbjargar árið 1985 og var það Kristjana, dóttir Kristjáns á Steinhólum sem bar sigur úr býtum í þeirri keppni. Gaman er að segja frá því að árið 2002 hlotnaðist sveitinni sá heiður að merki sveitarinnar var valið í hóp 10 fallegustu merkja hjálparsveita á Íslandi. 

Árið 1986 var fyrsta stóra ákvörðunin tekin í samráði við þau Steinhólahjón, en ákveðið var að byggja húsnæði fyrir sveitina og lagerpláss fyrir hjónin. Hafist var handa sama ár og byggingin mátti heita fokheld um haustið.  Á fimm ára afmæli sveitarinnar var húsið fullfrágengið og það vígt og tekið í notkun sem Bangsabúð. Þá hafði sveitin einnig eignast ýmsan búnað og var líka tekin ákvörðun um bílakaup.

Veturinn 1988-89 fékk sveitin sinn fyrsta bíl, Ford Econoline.  Árið 1994 keypti sveitin gamlan snjóbíl og þjónaði hann sínu hlutverki með nokkrum endurbótum.  En þetta var ekki nóg,  það þótti ljóst að það þyrfti að eignast öflugan jeppa og í janúar 1997 eignaðist sveitin Toyota Land Cruiser, fullbúinn hjálparsveitarjeppa. Fljótlega upp úr þessu var ljóst að rekstri gamla Steinhólaskála yrði hætt og þótti þá tilvalið að kaupa lagerplássið af Kristjáni og Helgu til að fá meira húsrými. Sveitin var þannig komin í um 150 fm. húsnæði, sem var mikil breyting. Árið 1998 eignaðist sveitin sinn fyrsta vélsleða af Polaris gerð, sem var svo endurnýjaður haustið 2000 þegar keyptir voru tveir Yamaha Ventura 700 sleðar.  Á árinu 2001 var snjóbíllinn endurnýjaður þegar Éli (Snow Trak árg. 1966) var skipt út fyrir Leitner 250 árg. 1987, öflugan snjóbíl með tönn. Auk þess búnaðar sem sveitin hafði eignast á þessum tímapunkti voru öll ökutækin búin fjarskipta- og leiðsögutækjum af bestu gerð. Félagar voru orðnir um 50 talsins og var lögð mikil áhersla á menntun þeirra og tekin hin ýmsu námskeið til að efla kunnáttu félaganna.

Árið 2001 hófst útgáfa Dalbjargarblaðsins svokallaða, að frumkvæði Péturs Róberts Tryggvasonar heitins sem var ritstjóri þess í mörg ár. Útgáfan hefur staðið óslitið síðan þá og blaðið hefur vaxið og dafnað í takt við starf og félaga sveitarinnar. Blaðið er ávallt sent öllum björgunarsveitum landsins og er þetta orðinn fastur liður í starfi Dalbjargarfélaga ár hvert.

Árið 2002 var smíðuð viðbygging eða forstofa við Bangsabúð og einnig var farið að huga að kaupum á öðrum jeppa fyrir sveitina. Árið 2003 tóku nokkrir hraustir félagar þátt í Björgunarleikum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem þá voru haldnir í annað skiptið og höfnuðu í þriðja sæti. Það ár varð sveitin einnig 20 ára og var haldin vegleg veisla í Bangsabúð. Sleðar sveitarinnar voru einnig endurnýjaðir í tvo Polaris SwitchBack 600.

Árið 2004 var grunnur lagður að stofnun Unglingadeildarinnar Bangsa, sem hefur þróast ört og nú er starfið í deildinni mjög öflugt með hæfum umsjónarmönnum. Þetta er nauðsynlegur þáttur í menntun og þjálfun unglinga sem hafa áhuga á að ganga í björgunarsveit, en þau koma vel undirbúin til liðs við hjálparsveitina. Það hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á menntun félagsmanna Dalbjargar og mörg námskeið eru haldin á ári. Með tímanum hefur kerfið auðvitað breyst eins og annað og nú hafa fjarnámskeið bæst í flóru Björgunarskólans, sem er mjög þægilegur kostur fyrir annasamt fólk. Félagar hafa mikla möguleika á að mennta sig á sínu áhugasviði, s.s. fjallabjörgun, skyndihjálp eða öðru. Í gegnum árin hefur mikil áhersla verið lögð á skyndihjálp og eigum við hóp af færu fólki á því sviði, bæði sérmenntuðu og þeim sem hafa tekið venjuleg námskeið reglulega. Einnig er vaxandi fjallabjörgunarhópur starfandi hjá okkur.

Árið 2005 var keyptur nýr jeppi, Nissan Patrol, sem hefur reynst okkur vel við hlið Toyota LandCruiser bílsins sem kom úr mikilli yfirhalningu á árinu 2011. Tækjaflokkur Dalbjargar hugsar vel um tækin okkar og eiga þeir Ingvar Þ. Ingólfsson og Hlynur Þórsson sérstakt hrós skilið fyrir vinnuna við að gera upp gamla bílinn okkar.

Í fyrsta skiptið sem Hálendisgæsla S.L. var starfrækt, árið 2006, tóku félagar Dalbjargar að sjálfsögðu þátt og hafa gert síðan. Sveitin hefur einnig verið öflug í annars konar forvörnum, en farin er yfirferð um Eyjafjarðarsveit einu sinni á ári og seldar rafhlöður í reykskynjara, auk annars eldvarnarbúnaðar. Þetta hefur verið gert frá árinu 1991 og alltaf er tekið jafn vel á móti okkur.

Útköll og aðstoð eru stór þáttur í starfinu okkar. Við sinnum jafnt stórum útköllum á hálendinu, sem aðstoðarbeiðnum í heimabyggð. Útkallshópurinn okkar er orðinn mjög sterkur og er það ekki síst viðhaldi menntunar og reynslu að þakka. Árið 2008 var undirritaður samningur við Slökkvilið Akureyrar um að Dalbjörg myndi manna hjálparlið í sveitinni fyrir slökkviliðið. Samstarfið gengur vel og fara meðlimir hjálparliðsins á æfingar til að viðhalda þekkingu sinni.

Sama ár hófst annars konar samstarf, en þá var Björgunarsveitinni Tý á Svalbarðseyri boðið pláss í Dalbjargarblaðinu. Síðan hefur það verið fastur liður í blaðinu og samstarfið hefur teygt sig yfir á önnur svið, s.s. æfingar, ferðir og aðra viðburði.

Smám saman, með meira starfi og miklum búnaði sveitarinnar, varð ljóst að húsnæðið í Bangsabúð var orðið of lítið fyrir okkur. Eftir mikla vinnu húsnæðisnefndar og leit að hentugri lóð fyrir nýtt húsnæði var ákveðið haustið 2013 að kaupa húsnæðið sem hýsti gamla blómaskálann á Hrafnagili og breyta honum í björgunarsveitarhús. Þrotlaus vinna hefur staðið yfir veturinn 2013-2014 við að breyta og bæta eins og við viljum hafa húsið okkar.

Af þessari stuttu sögu er ljóst að Hjálparsveitin Dalbjörg hefur vaxið og dafnað mikið frá stofnun sveitarinnar og hefur það áorkast vegna góðra og duglegra félaga. Það skal því hafa í huga að það skiptir ekki máli hvers konar breytingar við göngum í gegnum og hvað við eignumst mörg ný tæki og tól, nema góðir félagar séu til staðar. Alltaf er það mannauðurinn sem skiptir mestu máli og sem allt mæðir á. Án öflugra félaga væri sveitin ekki stödd þar sem hún er í dag.

Febrúar 2014

Ingvar Þ. Ingólfsson

Sunna Axelsdóttir

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is