• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Að breyta björgunarsveitarbíl

Grein úr Dalbjargar blaðinu 2008

Að breyta björgunarsveitarbíl!

 

Björgunarsveitir þurfa breytta jeppa og þegar á að fjárfesta í svoleiðis tæki vakna alltaf spurningar um hvaða bíll hentar best, hvernig á að breyta honum og hvar sé best að láta breyta honum. 

Við í Dalbjörg stóðum frammi fyrir þessum spurningum þegar við ákváðum að endurnýja annan bíl sveitarinnar. Fyrir átti sveitin 38” Land Cruiser 80 og var ákveðið að nýji bíllinn yrði 44” breyttur.

Við skoðuðum hvaða bíltegundir myndu henta okkur best og komu tegundir eins og Land Cruiser 120, Land Rover Defender eða Nissan Patrol helst til greina. Varð Patrol fyrir valinu þar sem hann kostaði svipað og hinir bílarnir, var rúmbetri og þótti sterkari til 44” breytinga. Var ákveðið að hafa hann beinskiptan, en eftir á að hyggja, hefði hann sennilega verið betri með sjálfskiptingu þar sem vélin togar lítið á lágsnúningi. Vélin er líka afllítil, en það á að bæta úr því með tölvukubb og sverara pústi. Hefur það gefið góða raun hjá félögum okkar í björgunarsveitinni Súlum en þeir eru með eins bíl.

Við fengum Halla í Kliptrom ehf (nú K2 Mótorsport, Akureyri) og Breyti í Reykjavík til að koma með hugmyndir og tilboð í breytingu á 44” bíl. Eftir að hafa skoðað tilboðin, ábyrgðir og annað, ákváðum við að semja við KT þar sem það tilboð var mun öflugra bæði hvað varðar undirvagn og útfærslu og síðan var það tilboð lægra. Í breytingarferlinu fengum við að koma með okkar hugmyndir og var unnið úr þeim þar til allir voru sáttir. Til dæmis var upphaflegum gormum og dempurum skipt út í stað öflugri og burðarmeiri búnaðar, framstuðari var einnig látinn fjúka og sérsmíðuð grind sett á bílinn.

Það var stutt fyrir okkur að sækja þjónustuna og gátum við fylgst með öllu ferlinu frá byrjun, enda skiptir það miklu máli að stutt sé í þjónustu þegar bíllinn þarf viðhald.

Við erum búin að nota bílinn í tæp 2 ár núna og erum við mjög sátt við hann. Bíllinn hefur farið tvisvar til breytingaraðilans í viðhald,  annað skiptið vegna þess að við vildum láta styrkja stífuturn og stigbrettafestingu, í hitt skiptið vildi breytingaraðilinn setja öflugri lofttjakk á milligír þar sem hinn væri mögulega ekki nógu öflugur. Var þetta gert okkur að kostnaðarlausu og bíllinn klár á nokkrum klukkutímum.

Af okkar reynslu erum við mjög sátt með bílinn og breytingaraðilann þar sem hann leggur metnað sinn í að bílnum sé vel breytt og ábyrgist smíðina, og eins ábyrgist Ingvar Helgason verksmiðjugalla framleiðandans á bílnum ef þeir koma upp.

Björgunarbifreiðin kostaði með öllum búnaði og breytingum  8.200.000 kr. En þá á eftir að draga frá niðurfellingar á virðisaukaskatt og aðflutningsgjöldum sem við fáum endurgreitt.

Sjálfur bíllinn kostaði 4.350.000 kr., kostnaður við breytingar var 3.200.000 kr. og sjúkrabúnaður í bílnum kostaði rúmlega 400 þúsund. Flotgalli, teygjuspotti, verkfæri og fleira voru um 300.000 kr.

Nokkrir mjög góðir kostir við bílinn.

Sérsmíðaður stuðari sem er margfalt sterkari, tengist saman við spilbita sem styrkir bæði grind og spilbita. Stuðarinn er líka 9 L loftkútur, festing fyrir kastara, ver bílinn og síðan er hægt að lyfta bílnum með honum.

Milligír er frá Jeppasmiðjunni Ljónsstöðum. Hann er í hlutföllunum 2,02:1 og loftstýrður. Síðan er hlutfall 3,74:1 í millikassa og hlutföll í hásingum 5,42:1 með læsingum.

Nýju gormarnir er  50 mm lengri og stífari en þeir gömlu. Samsláttarpúðar eru úr Land Cruiser og hásing var færð aftur um 50 mm. Allar stífur og jafnvægisstangir voru síkkaðar og styrktar.

Gormaskálar voru færðar niður og OME gormar og demparar settir í hann, auk þess sem stýrisbúnaður var styrktur.

Mikið var klippt úr bílnum og gengið fagmannlega frá, þannig að hann rekur ekki dekkin utan í við mestu misfjöðrun.

Komum við síðan 9 rása aukarafkerfi frá Samrás og fjarskiptabúnaði ásamt lögnum fyrir í bílnum sjálfir. Er það hagalega og fagmannlega unnið.

Bíllinn er á 44” dekkjum á Bed lock felgum og í honum er 75 lítra aukatankur. Að framan eru fjórir kastarar, 170/100W punkt-og dreifiljós, 6 stk. Sirius 55W vinnuljós og svo eru inniljós undir sætum og mælaborði. Á toppnum eru IPF 100W leitarljós og 2 forgangsljós. Annar búnaður er til dæmis tetrastöð, VHF stöð, NMT farsími og tölva.

 

Sjúkrabúnaður

Á toppi

Skel, bakbretti m/ólum, KED-vesti, 2 hálskragar, 4 aluformspelkur, líkpoki, segl og fimm teppi.

Sjúkrataska

Súrefnismettunar- og púlsmælir, sykurmælir, hitamælir, blóðþrýstingsmælir, pennaljós, skæri, pinnsett, Burnfree gel og grisjur, plástrar, umbúðir og teygjubindi, augnskol, SAM spelkur, ælupokar og nálabox.

Lyf

Paratabs verkjatöflur, Voltarin bólgueyðandi töflur, Koffínátín bílveikitöflur, Hypostopp sem er notað við lágum sykri, saltvatn, Burnfreekrem og hjartamagnýl 75 mg.

Súrefnistaska

Súrefniskútur 400 l., gleraugu, maski með sarp, blástursmaski og kokrennur.

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is