• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Útköll og aðstoðarbeiðnir

Útköll og aðstoðarbeiðnir
Frá útkalli í febrúar 2015.

Mikið hefur verið um útköll undanfarið og því mikið að gera hjá okkur í Hjálparsveitinni Dalbjörg. Við erum heppin að hafa svo góðan mannskap í sveitinni okkar sem við getum treyst á til að manna stór útköll, sem og aðrar aðstoðarbeiðnir. 

29. október

Þennan dag valt Buggy bíll ofan Laugalands í Eyjafjarðarsveit með ökumann innanborðs. Óskað var eftir aðstoð og fóru fimm félagar á staðinn á báðum bílum sveitarinnar. Ökumaðurinn hlaut einhver meiðsli af byltunni. Honum var komið til aðstoðar og hann fluttur á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri á öðrum bíl sveitarinnar.

3. nóvember

Rétt um hádegi þennan dag fékk Dalbjörg útkallsbeiðni vegna 5 göngumanna í vandræðum, en þeir höfðu sent boð með neyðarsendi. Fjórir félagar sveitarinnar fóru af stað til aðstoðar. Úr varð að þyrla Landhelgisgæslunnar sótti fólkið en félagar Dalbjargar luku þó verkefninu með því að sækja bílinn og flytja hann á lögreglustöð.

5. nóvember

Þennan dag barst Dalbjörg beiðni um að göngumönnum yrði ekið á Hólafjall vegna eftirleitar á sauðfé og fór einn félagi á verkefnið á Dalbjörg 1. 

6. nóvember

Tvö útköll bárust þennan dag, annars vegar um morguninn vegna tveggja veiðimanna sem saknað var á Snæfellsnesi og hins vegar um kl. 18:30 vegna manns sem hafði lent í sjálfheldu við fossinn Míganda í Gunnólfsvíkurfjalli við eftirleit á sauðfé. Sveitin sendi fimm manns til aðstoðar í Gunnólfsvíkurfjall. Þeir fóru af stað um kl. 20:30 og voru komnir til baka um kl. 10:00 morguninn eftir. Báðar aðgerðir voru mjög umfangsmiklar og voru kallaðar til björgunarsveitir af mörgum svæðum til aðstoðar. Aðgerðirnar gengu báðar vel og komust allir til síns heima heilu og höldnu.

18.-20. nóvember

Föstudaginn 18. nóvember barst útkall vegna rjúpnaskyttu sem orðið hafði viðskila við félaga sína á Héraði. Átta félagar fóru til leitar frá Hjálparsveitinni Dalbjörg og lögðu af stað um kl. 22 á föstudagskvöld en komu til baka seinnipart laugardags. Leitin hafði þá ekki borið árangur. Á sunnudagsmorgni var maðurinn enn ófundinn og fóru fjórir félagar frá Dalbjörg enn til leitar um kl. 7 að morgni þann. Á leið þeirra austur bárust þær góðu fréttir að maðurinn hafði fundist heill á húfi. 

22. nóvember

Þennan dag barst björgunarsveitum við Eyjafjörð útkall vegna leitar að manni sem var saknað. Sex félagar sveitarinnar fóru til leitar á þremur bílum. Eftir nokkra leit fannst bíll mannsins og maðurinn einnig. 


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is