• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Útkall - Snjóflóð

Útkall - Snjóflóð
Dalbjargarfélagar

Tveir skíðamenn sentu út neyðarboð laust fyrir klukkan 18:00 þann 13. mars. 

Fimm félagar lögðu af stað úr Dalborg á tveim bílum um sexleytið. Einn var þó skilinn eftir á leið frameftir þar sem fyrst var talið að neyðarboðið væri úr bíl og mögulega þyrfti að hafa pláss fyrir nokkra farþega til baka.

Fljótlega varð þó ljóst að um skíðagöngumenn var að ræða og höfðu þeir lent í snjóflóði en komist óhultir upp úr því. Bílar sveitarinnar komust ekki lengra þegar um 1,5km var í punktinn þar sem talið var að mennirnir væru. Ákveðið var að kalla út tvo sleða Dalbjargar sem og senda tvo menn, sem voru vel búnir og með snjóflóðabúnað, gangandi síðasta spölinn. Eftir um 1,3km göngu fundust mennirnir en voru þá hinu megin við Eyjafjarðarána. Veður fór versnandi og ekki þótti öruggt að vaða yfir ána. Kallað var eftir frekari búnaði með sleðunum svo það væri hægt og ákveðið að bíða. Loks þegar sleðarnir komu var veðrið orðið mjög leiðinlegt og skyggni lítið. Rösklega gekk þó að ná mönnunum örugglega yfir ána og var þeim skutlað á sleðunum í bílana. Þeir voru nokkuð brattir en þakklátir fyrir aðstoðina. 

Óhætt er að segja að útkallið hafi þróast í allt aðra átt en reiknað var með í upphafi og sýnir okkur hversu mikilvægt er að fara alltaf vel búin af stað í útköll, þá sérstaklega að veturlagi. 


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is