• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Óveðursvakt og aðstoðarbeiðnir

Óveðursvakt og aðstoðarbeiðnir
Dalbjargarfélagar í haustferð 2014

Eins og margar aðrar björgunarsveitir voru Dalbjargarfélagar með óveðursvakt í húsi seinnipart mánudagsins 7. desember og fram á næsta morgun, en það voru sjö manns sem stóðu vaktina hjá okkur. Sem betur fer skall veðrið ekki á sveitinni með jafn miklum ofsa og búist var við, svo nóttin var tíðindalítil utan þess að rafmagnið fór af í sveitinni og á fleiri svæðum. Tíminn var nýttur í ýmsar æfingar og lagfæringar í húsi, en undir morgun var orðið heldur kalt í húsinu vegna rafmagnsleysisins. Auk þess voru aðilar frá Dalbjörg á vakt í svæðisstjórninni á svæði 11 vegna óveðursins undanfarna daga.

Dagana á undan höfðu Dalbjargarfélagar í nógu að snúast þar sem ýmsar aðstoðarbeiðnir bárust vegna óveðurs og ófærðar.

Þann 23. nóvember fóru fimm félagar til aðstoðar á bæ í sveitinni vegna þakglugga á fjósi sem var að gefa sig vegna hvassviðris og var bóndinn aðstoðaður við að loka glugganum. 

Þann 4. desember fóru tveir félagar á Dalbjörg 2 fram í sveit til þess að koma heilbrigðisstarfsmanni til vinnu á Akureyri.

Þann 5. desember var farið á Dalbjörg 1 og ljósmóður í Hrafnagilshverfinu komið til starfa á Akureyri.

Þann 6. desember barst aðstoðarbeiðni frá bónda í Sölvadal um að ná í bilaðan vélsleða og var farið á Dalbjörg 1 til aðstoðar. 

Af þessu sést að Dalbjargarfélagar hafa haft í nógu að snúast undanfarna daga og vikur. Næstu verkefni eru vinna við útgáfu blaðsins okkar um jólaleytið og síðan verður flugeldasalan í Hrafnagilsskóla að venju. Við hlökkum auðvitað til að sjá sem flesta þar.

 


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is