Blómaskála breytt í björgunarsveitarhús
Á haustdögum árið 2013 varð langþráður draumur félaga í Hjálparsveitinni Dalbjörg í Eyjafjarðarsveit um stærra húsnæði fyrir sveitina að veruleika. Þann 4. október 2013 var skrifað undir samning um kaup á gamla blómaskálanum sem stendur í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit, en kaupin eru stærsta fjárhagslega skuldbinding Hjálparsveitarinnar Dalbjargar frá upphafi.
Sveitin er þannig komin í mun stærra húsnæði en áður sem hentar betur fyrir starfsemina og einnig nær kjarna sveitarfélagsins. Fyrra húsnæði er staðsett í Bangsabúð við Steinhóla í Saurbæjarhreppi og flutti Hjálparsveitin Dalbjörg formlega úr gamla húsnæðinu þann 23. nóvember 2013.








