Dalbjargarblaðið


Dalbjargarblaðið hefur verið gefið út síðan árið 2001. Upphafsmaður að útgáfu þess var Pétur Róbert Tryggvason heitinn, en hann sá í þessari hugmynd kjörið tækifæri til að kynna sveitina okkar út á við. Í blaðinu er farið yfir starfið á hverju ári, fasta og nýja viðburði og margt fleira. Einnig eru skrifaðar greinar í blaðið um ýmis málefni, s.s. eldri útköll og atvik í sveitinni. Pétur Róbert og Sunna Axelsdóttir hafa haft umsjón með útgáfu blaðsins frá upphafi, en Pétur var ritstjóri allt til ársins 2011 er Sunna tók við starfinu. Árið 2022 tóku Anna Hlín Guðmundsdóttir, Erla Katrín Orradóttir, Freydís Erna Guðmundsdóttir og Guðrún Jóna Stefánsdóttir við útgáfunni. 


Útgáfa blaðsins er orðinn fastur liður í starfi Dalbjargarfélaga og leggja margir sitt af mörkum seinni hluta ársins til að blaðið geti orðið að veruleika, en það er gefið út á milli jóla og nýárs. Blaðinu er dreift í öll hús í Eyjafjarðarsveit og liggur frammi á hinum ýmsu stöðum á Akureyri. Einnig er það sent til allra styrktaraðila ásamt því að vera sent til allra björgunarsveita á landinu. Styrktaraðilar í gegnum árin hafa verið fjölmargir og það er orðinn fastur liður hjá mörgum aðilum að auglýsa í blaðinu okkar.