Aðstoðarbeiðni á Glerárdal
Um hádegi í dag, eða um 11:30, barst Hjálparsveitinni Dalbjörg aðstoðarbeiðni frá skíðagöngufólki á Glerárdal. Um var að ræða sjö konur sem farið höfðu upp Glerárdalinn og voru á leið niður aftur þegar þær lentu í slæmu skyggni og treystu sér ekki lengra, en allar voru þær við góða heilsu. Þær sneru við í skálann Lamba og þrátt fyrir stopult símasamband gátu þær hringt til byggða og óskað eftir aðstoð til að komast heim á leið.
Tveir sleðamenn, Arnar og Hlynur, lögðu af stað á tveimur sleðum sveitarinnar um kl. 12:30 og voru komnir í skálann um kl. 14:00. Þeir höfðu þá þegar farið og gert slóðir frá Lamba og yfir Lambárgil, þar sem komið er að stikaðri leið. Þeir héldu þá í skálann og ræddu við konurnar sem voru ferðbúnar og biðu aðstoðarmannanna. Skyggni og veður var orðið gott á þessum tíma og konurnar eltu sleðaslóðirnar yfir gilið og héldu síðan heim á leið eftir stikuðu leiðinni af sjálfsdáðum. Þær voru komnar til byggða um kl. 18:00.








